Seðlabankinn segir horfur vera á að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiði bankans fram undir lok næsta árs og verði samkvæmt spá hans 0,7% á þessu ári og 2,3% á árinu 2016. Þetta kemur fram í nýjum Peningamálum Seðlabankans sem komu út í morgun.

Fram kemur að verðbólguhorfur hafi breyst töluvert frá síðustu útgáfu Peningamála. Gert sé ráð fyrir 0,5% verðbólgu á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en í síðustu spá hafi verið búist við að hún yrði 2%. Frávikið skýrist hins vegar af mun lægri upphafsstöðu þar sem verðbólga hafi reynst minni undanfarna mánuði sem aðallega megi rekja til beinna og óbeinna áhrifa lækkunar olíuverðs á heimsmarkaði.

Hins vegar segir að ýmsar forsendur spárinnar séu háðar töluverðri óvissu. „Helst má nefna óvissu um niðurstöður komandi kjarasamninga þar sem launahækkanir gætu reynst meiri en gert er ráð fyrir í grunnspánni. Ef samið yrði um launahækkanir sem eru umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiðinu að viðbættum framleiðnivexti yrði verðbólguþrýstingur meiri en hér er gert ráð fyrir.“

Þá segir að óvissa um gengisþróun krónunnar á spátímanum sé sem fyrr mikil í ljósi óvissu um áhrif losunar fjármagnshafta og uppgjör búa fallinna fjármálafyrirtækja.