Verðbólga í Kína hefur ekki verið meiri það sem af er ári og mældist 1,6% í síðasta mánuði. Hækkaði hún þá um 0,2% milli mánaða. BBC News greinir frá þessu.

Þrátt fyrir þetta er verðbólga í landinu töluvert undir markmiði kínverska seðlabankans sem nemur þremur prósentum. Segja sérfræðingar að tölurnar gefi til kynna að þörf sé á örvunaraðgerðum af hálfu stjórnvalda til þess að glæða markaðinn lífi.

Kínverski seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti fjórum sinnum síðan í nóvember á síðasta ári í því skyni að örva markaðinn og standa þeir nú í 4,85%. Er talið líklegt að bankinn muni lækka vextina enn meira á næstunni.