Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,2% í desember frá fyrri mánuði. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 3,6% en hún var 3,5% í nóvember. Hækkunin er talsvert lægri en í desember á undanförnum árum.

Sagt er frá því að verðbólga hafi aukist talsvert það sem af er ári sem að miklu leyti megi rekja til veikingar krónunnar. Hins vegar hafi sú veiking gengið að hluta til baka í nóvember og í byrjun desember en árstaktur verðbólgu tók að hjaðna í fyrsta sinn í átta mánuði í nóvember.

Íslandsbanki áætlar að verðbólga verði að jafnaði 2,8% á þessu ári, 2,9% á næsta ári og 2,3% árið 2022. Bankinn spáir talsverðri verðbólgu á fyrsta ársfjórðungi næsta árs eða 3,7% en að verðbólgan verði komin undir markmið Seðlabankans fyrir lok næsta árs sem er 2,5%.

Á meðal forsenda Íslandsbanka er að „bóluefni verði komið á markað á öðrum ársfjórðungi næsta árs og ferðaþjónustan eigi betra ár í vændum en það sem fer nú að renna undir lok.“ Því muni krónan styrkjast þegar lengra líður á sama tíma og slaki í hagkerfinu minnkar.