Verðbólga í Bandaríkjunum hækkaði um 0,8% á milli mánaða og mældist 6,2% í október. Árshækkun vísitölu neysluverðs í Bandaríkjunum hefur ekki verið meiri frá árinu 1990 og hefur nú mælst yfir 5% fimm mánuði í röð.

Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 4,6% í október, samanborið við 4,0% í september. Kjarnaverðbólgan hefur ekki mælst meiri frá árinu 1991.

Verðhækkanir var að finna í flestum geirum. Þar vó þyngst hækkandi fasteignaverð, bensínverð, aukinn orkukostnaður ásamt því að verð á bílum, bæði nýjum og notuðum, hefur hækku nokkuð.

Undirliður vísitölun neysluverðs sem mælir bensínverð hækkaði um 6,1% í september og hefur nú hækkað um 50% á ársgrunni. Vísitala yfir orkukostnað hækkaði sömuleiðis um 4,8% í síðasta mánuði og hefur hækkað um 30% á síðustu tólf mánuðum.

Joe Biden Bandaríkjaforseti einblíndi á orkukostnaðinn í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær vegna verðbólguskotsins. Hann nýtti tækifærið til að hvetja bandaríska þingið til að samþykkja 1,75 þúsund milljarða dala fjárfestingarpakka, sem á m.a. að fara í skattaívilnanir á endurnýjanlegum orkugjöfum, fjárfestingar í félagslegar íbúðir sem og niðurgreiðslu á leikskólanámi.

Biden tók fram að 17 Nóbelsverðlaunahafar í hagfræði hafi sagt að þessar opinberu fjárfestingar muni létta á verðbólguþrýstingi en ýmsir þingmenn Repúblikana telja hins vegar að erfiðara verður að eiga við verðbólguvandann ef ríkisútgjöld verða aukin verulega, að því er kemur fram í frétt Financial Times .