*

sunnudagur, 20. júní 2021
Erlent 5. júní 2021 18:03

Verðbólga yfir markmiði á evrusvæðinu

Verðbólga mældist 2% á evrusvæðinu í maí, það hæsta í 3 ár og yfir verðbólgumarkmiði Evrópska seðlabankans.

Ritstjórn
Christine Lagarde er seðlabankastjóri Evrópska seðlabankans.
epa

Verðbólga á evrusvæðinu mældist 2% í maí og hefur ekki mælst hærri síðan 2018. 0,4% hækkun 12 mánaða verðbólgu – sem er nú komin yfir tæplega 2% markmið Evrópska seðlabankans – er talin geta flýtt fyrir auknu aðhaldi peningastefnu eftir tímabil fordæmalauss slaka vegna faraldursins.

Stærsti einstaki áhrifaþátturinn var mikil hækkun orkuverðs. Mælingin er þó einnig talin til marks um kröftuga viðspyrnu hagkerfa svæðisins eftir heimsfaraldurinn.

Allt frá fjármálakrísunni fyrir rúmum áratug hafa seðlabankar Bandaríkjanna og Evrópu haft meiri áhyggjur af of lítilli verðbólgu en of mikilli. Í Bandaríkjunum mældist ársverðbólga 4,2% í apríl síðastliðnum, og hafði þá ekki verið meiri frá 2008.

Í Bretlandi mælist verðbólga enn mjög lág á flesta mælikvarða, um 1,5% í síðasta mánuði, en hefur þó hækkað skarpt úr 0,7% mánuðinn áður. Þar rétt eins og í Bandaríkjunum er verðbólgumarkmiðið 2%.

Stikkorð: ECB verðbólga