Hagfræðistofnun HÍ spáir því að verðbólga fari heldur vaxandi á þessu ári. Ekki séu merki um að verðbólgan hjaðni á komandi ári og verði því yfir markmiði Seðlabankans út næsta ár.

Hagfræðistofnunin gerir því ráð fyrir að verðbólgan verði meira viðvarandi en Seðlabankinn spáði sjálfur að mjög dragi úr verðbólgu á næsta ári „eins og hann gerir raunar jafnan“, segir í hagspá stofnunarinnar. Í greiningunni er því spáð að húsnæðisverð hækki heldur meira en almennt verðlag á næstunni.

„Þótt almenn bólusetning hafi ekki losað landsmenn við farsóttina hefur hagkerfið tekið vel við sér.“ Þá er bent á að í nýjasta hefti Peningamálum segi að slaki á vinnumarkaði minnki nú hraðar en gert var ráð fyrir í vor. Hagfræðistofnunin spáir því að atvinnuleysi haldist á bilinu 3-5% á næstunni.

Þá gerir stofnunin ráð fyrir að nokkuð dragi úr launahækkunum á næstu mánuðum, en bendir að vísu á að líkan sem stuðst er við hafi vanspáð launahækkunum nokkuð samfellt frá í október.

„Kreppan, sem nú er nýgengin yfir, var sérstök að því leyti að kaupmáttur launa óx töluvert meðan á henni stóð. Laun opinberra starfsmanna hækkuðu meira en annarra, en á almennum markaði hækkuðu laun líka hraðar en verðlag. Samið var um mikla hækkun lægstu launa í lífskjarasamningunum vorið 2019, en síðan þá hafa meðallaun hækkað álíka mikið og lágmarkslaun.“

Mynd tekin úr hagspá Hagfræðistofnunar HÍ.

Lækkun stýrivaxta tilraun hjá Seðlabankanum

Spár Hagfræðistofnunarinnar byggja á þeirri forsendu að stýrivextir fari hækkandi á næstu mánuðum og verði komnir í 2,0% í apríl næstkomandi. Reynist það rétt verði stýrivextir engu að síður 0,75 prósentum lægri en í mars 2020. Stofnunin minnist síðan á ákvörðun Seðlabankans um að lækka vexti um samtals 1,75% á rúmlega árstímabili fram að byrjun farsóttarinnar og segir um hana:

„Sú vaxtalækkun var ekki viðbrögð við breyttum efnahagsaðstæðum, nema þá að hluta, heldur fólst í henni stefnubreyting af hálfu bankans. Vextir færðust í átt að því sem gerist í flestum grannlöndum Íslands. Þetta er merkileg tilraun og enn er alveg óvíst hvort hún heppnast.“