Tólf mánaða verðbólga mælist nú í janúar 3,1% en verðbólga án húsnæðisliðarins er 1,9%. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun.

Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í janúar 2014 er 415,9 stig og lækkaði um 0,72% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 391,5 stig og lækkaði um 1,09% frá desember.

Víða eru vetrarútsölur og lækkaði verð á fötum og skóm um 10,8% og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 2,8%. Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 14,6% milli mánaða og bensín og olíur lækkuðu um 2,5%. Kostnaður vegna húsnæðis, hita og rafmagns hækkaði um 0,6%.