Verðbólga á Spáni nærri helmingaðist á milli mánaða og mældist 3,3% í mars samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Spánar. Til samanburðar mældist árshækkun vísitölunnar 6,0% í febrúar. Verðbólga á Spáni hefur ekki verið minni frá því í ágúst 2021.

Verðbólgan var undir spám hagfræðinga í könnun Reuters sem áttu von á að hún yrði í kringum 3,8%.

Aftur á móti mældist kjarnaverðbólga á Spáni, sem undanskilur sem undanskilur vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, 7,5% og hjaðnaði lítillega frá fyrri mánuði.

Hjöðnun verðbólgunnar í mars má einkum rekja til þess að raforku- og eldsneytisverð hækkaði í mars 2022 en lækkaði í þessum mánuði, að sögn Hagstofu Spánar. Mesta hækkun raforkuverðs í fyrra var í marsmánuði, skömmu eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Í umfjöllun Financial Times segir að sennilega eigi lægra raforkuverð eftir að lita verðbólgumælingar hjá öðrum Evrópulöndum í mars. Sumir gætu kallað eftir að Seðlabanki Evrópu stöðvi vaxtahækkunarferli sitt vegna hjöðnun verðbólgunnar.

Verðbólgan á Spáni miðað við samræmda vísitölu neysluverðs var 3,1% í mars, samanborið við 6,0%. Hagfræðingar höfðu spáð ‏því að hún yrði um 4,0%.