Sigríður Benediktsdóttir bendir á að burt séð frá fasteignamarkaðnum þá sé verðbólga einnig yfir markmiði þegar hann er settur til hliðar. Áhrifin af virðiskeðjum séu mikil á verðbólguna, enda óhjákvæmilegt þegar skortur er á vörum en neytendur hafa enn jafn mikinn pening á milli handanna og þeir höfðu fyrir vöruskortinn. Þessi verðbólga byggi á mjög breiðum grunni, allt frá skertu framboði yfir í mikinn launaþrýsting alþjóðlega. Hún telur erfitt að færa rök fyrir því að þessi verðbólga verði skammvinn þegar hún er svona víðtæk.

„Á hinn bóginn held ég að óvissan hafi sjaldan verið meiri í báðar áttir. Ef eftirspurn minnkar gæti verðbólga hjaðnað mjög skarpt en ef ekki fer að rætast úr framboðinu mun hún að öllum líkindum halda áfram að hækka."

Sigríður segir erfitt að bregðast við öðruvísi en að draga úr slaka peningastefnunnar með vaxtahækkunum til að hægja á verðbólgunni þar sem hún byggi á mjög breiðum grunni. Hún gerir ráð fyrir því að aðrir seðlabankar muni einnig fara að færa vexti upp, nær langtíma jafnvægi á næstunni.

„Hér á landi og víða annars staðar var farið í umtalsverðar örvunaraðgerðir af hendi ríkissjóða til að sporna gegn samdrættinum í heilbrigðiskrísunni. Með því að grípa ekki til áframhaldandi örvunaraðgerða er í raun verið að draga seglin mikið saman í þjóðarútgjöldum. Þessi minnkuðu umsvif í ríkisfjármálum munu styðja við peningastefnuna og koma þar með í veg fyrir að hækka þurfi vexti þeim mun meira."

Ríkir ríkari og fátækir fátækari

Sigríður telur Ísland hafa staðið sig vel í heilbrigðiskrísunni sem gengur yfir núna en það vanti kannski frekar upp á langtímasýnina.

„Í mörgum öðrum löndum, sér í lagi í Bandaríkjunum, voru dreifiáhrifin mjög mikil af þessari heilbrigðiskrísu. Ríkir urðu ríkari á meðan fátækir urðu fátækari. Hækkandi vöruverð kemur síðan hlutfallslega verr niður á þeim fátækari. Án þess að vera búin að skoða tölurnar þá sé ég þetta ekki eins sterkt á Íslandi. Það er hins vegar ekkert eðlilegt við það að fasteignir séu að hækka um 17-18% á ári."

Nánar er rætt við Sigríði í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .