Verðbólgan á evrusvæðinu mældist 2,5% í júlí síðastliðnum samkvæmt samræmdu vísitölu neysluverðs sem Eurostat birtir. Sé miðað við Evrópska efnahagssvæðið (EES) í heild mældist verðbólgan að jafnaði nokkuð meiri, eða 2,9%. Þetta kemur fram í Morgunkornum Íslandsbanka. Dregur því áfram úr tólf mánaða taktinum milli mánaða en í júní mældist verðbólgan á evrusvæðinu 2,7% en á EES 3,1%. Ekki er sömu sögu að segja með þróun verðbólgunnar hér á landi sem hefur aukist nær stöðug á milli mánaða það sem af er ári. Nú í júlí mældist verðbólgan á þennan kvarða 5,2% og eykst því töluvert frá því í júní en þá mældist hún 4,8%. Er verðbólgan hér á landi enn á ný orðin meiri en í öðrum löndum Evrópu og í raun mældist hún hærri í aðeins einu öðru landi innan EES í júlímánuði en það var á Eistlandi þar sem verðbólgan var 5,3%.