Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,06% í janúar frá fyrri mánuði en 12 mánaða hækkunin vísitölunnar, það er verðbólgan, er 4,3% að því er Hagstofa Íslands greinir frá.

Leita þarf aftur til ágúst 2013 til að finna jafnháa verðbólgu hér á landi, en í millitíðinni fór hún lægst í 0,8% í desember 2014 og hélst í því fram í febrúar 2015.

Ástæða lækkunar mánaðarlegu vísitölunnar nú er að verð á fötum og skóm hefur lækkað um 6,5%, væntanlega vegna þess að vetrarútsölur eru víða í gangi, og verð og húsgögnum og heimilisbúnaði hefur einnig lækkað um 3,3%.

Hins vegar hækkaði verð á húsnæði, hita og rafmagni um 0,6%, sömuleiðis verð á mat og drykkjarvörum um 0,6% og bensín og olíur hækkuðu um 3,1%.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði um 0,24% í janúar frá því í desember 2020, en hún hefur hækkað um 4,7% síðustu tólf mánuði.