Verðbólga er nú 3,1% og hefur ekki verið minni í tæp þrjú ár. Lækkun vísitölu neysluverðs um 0,72% í janúar er sú mesta í einum mánuði síðan í júlí 2012.

Greining Íslandsbanka segir að þessi mikla lækkun neysluverðsvísitölunnar nú skýrist af áhrifum 4,5% styrkingar krónu frá nóvember á síðasta ári, verðlækkun á eldsneyti erlendis og síðast en síst almennu átaki innanlands í þá veru að halda aftur af bæði árlegri janúarhækkun gjaldskráa og almennri hækkun vöruverðs.

Lækkun neysluverðsvísitölunnar nú er meiri en vænst var. Opinberar spár lágu á bilinu 0,3% - 0,5% lækkun, og Greining Íslandsbanka hafði spáð 0,4% lækkun vísitölunnar.