Tólf mánaða verðbólga mælist nú 4,2%, samkvæmt verðbólgutölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun. Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í desember er 418,9 stig og hækkaði um 0,53% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 395,8 stig og hækkaði um 0,33% frá nóvember.

Kostnaður vegna eigin húsnæðis hækkaði um 1,6% á milli mánaða (áhrif á vísitöluna 0,22%) og liðurinn ferðir og flutningar hækkaði um 1,1% (0,18%).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,2% og vísitalan án húsnæðis hefur hækkað um 3,3%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,9% sem jafngildir 3,6% verðbólgu á ári (1,6% fyrir vísitöluna án húsnæðis).

Meðalvísitala neysluverðs á árinu var 412,7 stig, 3,9% hærri en meðalvísitalan 2012. Samsvarandi breyting var 5,2% árið 2012 og 4,0% árið 2011.

Meðalvísitala neysluverðs án húsnæðis á árinu var 392,3 stig, 3,8% hærri en meðalvísitalan 2012. Samsvarandi breyting var 5,3% árið 2012 og 3,8% árið 2011.