Samræmd vísitala neysluverðs lækkaði að meðaltali um 0,4% á milli desember og janúar síðastliðinn í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Mun meiri lækkun var ef einungis er tekið mið af evruríkjunum, en þar lækkaði vísitalan að meðaltali um 0,7%. Er tólf mánaða taktur vísitölunnar nú 2,7% í ríkjum EES og er óbreyttur frá því í desember. Á hinn bóginn eykst tólf mánaða taktur verðbólgunnar á evrusvæðinu á þessum tíma, þ.e. fer úr 2,2% í 2,3%, og er þar með annan mánuðinn í röð yfir þeim 2,0% sem Evrópski Seðlabankinn miðar við að árstaktur verðbólgunnar sé innan við. Sem kunnugt er þá hefur Evrópski Seðlabankinn ekki enn ráðist í þá aðgerð að hækka vexti bankans þrátt fyrir aukna verðbólgu, enda er sú þróun síður en svo til marks um mikinn gang í efnahagslífinu heldur á rætur sínar að rekja til hækkunar orkuverðs og annarra hrávara.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Umfjöllun greiningarinnar:

Olíuverðhækkun hefur áhrif

„Kemur því ekki á óvart að af einstökum flokkum samræmdu vísitölunnar þá var árshækkunin mest á liðnum ferðir og flutningar (5,6%) innan ríkja EES, enda hefur varla farið framhjá nokkrum manni þær miklu verðhækkanir sem hafa orðið á heimsmarkaðsverði á olíu. Einnig hefur orðið töluverð verðhækkun á áfengi og tóbaki (4,8%) á sama tímabili sem og húsaleigu, hita og rafmagni (4,4%). Minnsta verðhækkunin var á fatnaði og skóm sem í raun lækkuðu um 0,5% á milli ára en einnig var lítil hækkun á tómstundum og menningu (0,3%) og svo pósti og síma (0,4%).

Verðbólgan á Íslandi undir meðaltali

Af löndum EES var verðbólgan mest í janúar í Rúmeníu (7,0%), næstmest á Eistlandi (5,1%) og þriðja mest á Grikklandi (4,9%). Minnst var verðbólgan í Sviss (0,2%) og svo á Írlandi (0,2%), en þetta er í fyrsta sinn síðan í febrúar árið 2009 sem tólf mánaða taktur verðbólgunnar mælist ekki með neikvæðum formerkjum á Írlandi. Í fyrsta sinn síðan í janúar árið 2008 mælist verðbólgan hér á landi undir meðalverðbólgunni í ríkjum EES. Þannig mældist verðbólgan hér á landi í janúar 2,2% miðað við sæmræmdu vísitöluna, og lækkar hún töluvert milli mánaða en hún hafði verið 3,5% í desember. Hefur árstaktur verðbólgu á þennan mælikvarða hjaðnað verulega síðasta árið. Í janúar í fyrra mældist hún til að mynda 10,6% en sem kunnugt er mældist verðbólgan lengi vel langmest hér á landi af öllum ríkjum innan EES. Meginástæða hjöðnunar verðbólgunnar hér á landi er að áhrif gengislækkunar krónunnar á verðbólgu sem varð í aðdragana og samhliða hruni bankakerfisins hér á landi á árinu 2008 eru nú horfin, auk þess sem mikill slaki er á vinnumarkaði og raunar í hagkerfinu öllu.“