Samræmd vísitala neysluverðs hefur hækkað um 2,4% að meðaltali á síðastliðnum tólf mánuðum á evrusvæðinu. Eykst verðbólgan því frá fyrri mánuði, en í janúar nam tólf mánaða hækkunartaktur vísitölunnar 2,3%. Verðbólgan er nokkuð meiri ef miðað er við allt Evrópska efnahagssvæðið (EES), en í febrúar síðastliðnum nam tólf mánaða taktur vísitölunnar 2,8% sem er það sama og hann var mánuðinn á undan.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag þar sem fjallað er um verðbólguna og gengi jensins í kjölfar jarðskjálftans í Japan.

Umfjöllun greiningardeildar í heild:

... á rætur að rekja til orkuverðs
Ekki kemur á óvart að þessi tólf mánaða hækkun á samræmdu vísitölunni í febrúar síðastliðnum eigi rætur sínar að rekja til hækkunar orkuverðs á tímabilinu. Þannig hefur liðurinn ferðir og flutningar hækkað mest (um 5,7%) á síðastliðnum tólf mánuðum á evrusvæðinu en einnig hefur töluverð hækkun verið á húsaleigu, hita og rafmagni (4,9%) og svo áfengi og tóbaki (3,5%). Þannig má rekja þessa hækkun til eldsneytisverðs (+0,62 í prósentustig í vísitölunni), olíu til hitunar (+0,23), rafmagns (+0,11) og svo gas (+0,1) en þessir þættir höfðu mestu hækkunaráhrifin á tímabilinu. Er þessi aukning verðbólgunnar því augljóslega ekki til marks um mikinn gang í efnahagslífinu í ríkjum evrusvæðisins, eða EES í heild.

Verðbólgan eykst lítillega hér á landi
Af löndum EES var verðbólgan mest í febrúar í Rúmeníu (7,6%), næstmest í Eistlandi (5,5%) og þriðja mest í Búlgaríu (4,6%). Minnst var verðbólgan í Sviss (0,5%) og svo á Írlandi (0,9%). Þrátt fyrir að verðbólgan sé ekki mikil á Írlandi er þetta mesta verðbólga sem verið hefur þar í landi í tvö ár enda hefur tólf mánaða taktur verðbólgunnar þar í landi oftar en ekki verið neikvæðum formerkjum á tímabilinu. Verðbólgan hér á landi miðað við samræmdu vísitöluna mældist 2,3% í febrúar og hækkar lítillega frá því í janúar en þá var hún 2,2%. Þetta er í annar mánuðurinn í röð síðan í janúar árið 2008 sem verðbólgan hér á landi mælist undir meðalverðbólgu í ríkjum EES.

Jenið í hæstu hæðum

Miklar sviptingar hafa verið á erlendum mörkuðum frá því að jarðskjálftinn reið yfir Japan síðastliðinn föstudag. Eins og gefur að skilja hefur gjaldeyrismarkaðurinn ekki farið varhluta af ástandinu í Japan og eftirköstum skjálftans. Hefur verið fróðlegt að fylgjast með hreyfingu japanska jensins frá þeim tíma, en það hefur styrkst verulega gagnvart öðrum myntum, sem er öfugt við það sem búast mætti við ef um annað land og aðra mynt væri að ræða. Aukin áhættufælni hefur í raun gegnum tíðina styrkt jenið og virðist það sama vera upp á teningnum nú og þá þrátt fyrir að rætur vandans liggja í Japan. Verður áhugavert að fylgjast með þróuninni næstu daga enda skipast skjótt veður í lofti á mörkuðum og er aldrei vita nema þessi þróun sem verið hefur undanfarna daga snúist upp í andhverfu sína.

Nú þegar þetta er ritað (kl. 11:00) stendur USD/JPY krossinn í 78,56 en í gær náði hann sínu lægsta gildi í sögunni þegar hann fór í 77,99. Hefur þessi mikla styrking japanska jensins gagnvart Bandaríkjadollar þar með gengið eitthvað til baka nú í morgunsárið, sem kemur einna helst til af því að væntingar hafa nú myndast á mörkuðum um að beitt verði inngripum á gjaldeyrismarkaði í kjölfar þessara miklu styrkingar jensins.

Minni hreyfingar gagnvart evru
Minni breyting hefur verið á gengi jensins gagnvart evrunni, sem kemur til af því að Bandaríkjadollar hefur einnig verið að veikjast sem ýkir augljóslega enn breytinguna á USD/JPY krossinum. Nú þegar þetta er ritað kostar evran tæp 110 jen en hún kostaði rúm 114 jen áður en þessar miklu jarðhræringar í Japan áttu sér stað. Hvað EUR/USD krossinn varðar þá stendur hann nú í sínu hæsta gildi frá því í byrjun nóvember á síðasta ári. Nú þegar þetta er ritað kostar evran 1,4027 Bandaríkjadollar og er ekki ólíklegt að krossinn komi til með hækka enn frekar næstu daga.

Augljóslega fer krónan ekki varhluta af þessum aðstæðum þrátt fyrir hin ströngu gjaldeyrishöft sem eru við líði hér á landi. Nú þegar þetta er ritað kostar jenið 1.4692 krónur en það náði sínu sögulega hæsta gildi í gær þegar jenið fór upp í 1,4875 krónur.