Vísitala neysluverðs hækkar um 0,43% milli mánaða í október og þar með er tólf mánaða hækkun hennar, verðbólgan, komin í 3,6%, að því er Hagstofa Íslands greinir frá. Þar með hefur verðbólgan ekki verið hærri síðan í maí 2019, eða í 17 mánuði. Lægst fór þessi 12 mánaða hlaupandi meðaltal vísitölunnar í 1,7% í janúar á þessu ári.

Hækkunin nú er þvert á spár greiningardeilda bankanna um lækkun að verðbólgan myndi annað hvort standa í stað eða jafnvel lækka þegar niðurstöður Hagstofunnar kæmu í hús. Eins og V iðskiptablaðið sagði frá um miðjan mánuðinn voru spár greiningardeilda ríkisbankanna tveggja á þróun verðbólgunnar í mánuðinum misvísandi.

Íslandsbanki spáði fyrstu lækkun vísitölunnar frá upphafi kórónuveirufaraldursins , eða um 0,02%, og þar með 3,2% verðbólgu, en Landsbankinn spáði því að vísitalan hækkaði um 0,35% og þar með stæði verðbólgan í stað í 3,5%.

Vísitalan án húsnæðisliðar hækkaði meira en með henni innifaldri eða um 0,43% í október frá fyrri mánuði, svo 12 mánaða hækkunin, verðbólgan án húsnæðis, er þar með komin í 4,1%.

Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 1,0%, en áhrif þess til hækkunar á vísitölunni eru 0,15%, og kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 0,6%, sem skilaði 0,09% hækkun vísitölunnar nú.