Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 8,3% í apríl og lækkaði um 0,2 prósentustig frá því í mars. Þetta er í fyrsta sinn í átta mánuði sem verðbólgan þar í landi hjaðnar. Hins vegar var ársverðbólgan yfir væntingum hagfræðinga sem spáðu að meðaltali 8,1% verðbólgu. Vísitala neysluverðs í Bandaríkjunum hækkaði um 0,3% á milli mánaða.

Í umfjöllun Wall Street Journal segir að hjöðnun verðbólgunnar gæti verið merki um að það fari að hægja á verðhækkunum eftir að ársverðbólgan náði 40 ára hámarki í síðasta mánuði. Hins vegar gefi kjarnaverðbólgan, sem undanskilur vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, til kynna að verðbólguþrýstingur sé enn til staðar.

Vísitala kjarnaverðbólgu (e. core-price index) hækkaði um 0,6% á milli mánaða en til samanburðar hækkaði hún um 0,3% á milli febrúar og mars. Kjarnaverðbólgan mældist 6,2% á ársgrunni í apríl.

Bandaríski seðlabankinn hækkaði stýrivexti um hálfa prósentu í síðustu viku og var það mesta vaxtahækkun í einu skrefi frá árinu 2000.