Verðbólga í Bretlandi hjaðnaði úr 10,4% í 10,1% á milli febrúar og mars, samkvæmt n‎ýjum tölum frá Hagstofu Bretlands í morgun. Hjöðnun verðbólgunnar er einkum rakin til lækkunar á eldsneytisverði. Verðbólgan hefur nú verið í tveggja stafa tölu frá ágúst síðastliðnum.

Verðbólgan mældist nokkuð yfir spám greiningaraðila sem áttu von á að hún myndi hjaðna niður í 9,8%. Í umfjöllun Financial Times segir að verðbólgutölurnar auki líkurnar á að Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, hækki vexti í næsta mánuði.

Englandsbanki hafði vonast til að sjá fyrstu merki um minni verðbólguþrýsting en kjarnaverðbólga, sem undanskilur matvæla- og orkuverð, stóð óbreytt í 6,2%.