Árshækkun vísitölu neysluverðs í Bretlandi mældist 7,0% í Bretlandi í mars og hækkaði um 0,8 prósentustig frá fyrri mánuði. Verðbólgan hefur ekki verið meiri í Bretlandi frá því í mars 1992. Niðurstaðan var talsvert umfram væntingar en hagfræðingar sem Reuters leitaði til höfðu spáð að meðaltali 6,7% verðbólgu í mars.

Peningastefnunefnd Englandsbanka, seðlabanka Bretlands, sagði við vaxtaákvörðun fyrir rúmum mánuði að hún gerir ráð fyrir að verðbólga fari upp í 8% á öðrum fjórðungi og verði jafnvel enn meiri síðar á árinu. Til samanburðar þá miðar Englandsbanki við 2% verðbólgumarkmið. Stýrivextir voru hækkaðir úr 0,5% í 0,75% í síðasta mánuði.

Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 8,5% í mars, samanborið við 7,9% í febrúar, samkvæmt nýjum tölum sem birtust í gær . Verðbólga í Bandaríkjunum hefur ekki verið meiri frá því í desember 1981.