Tólf mánaða hækkun vísitala neysluverðs í Danmörku nam 3,1% í Danmörku, sem er 0,3 prósentustiga lækkun frá nóvember. Hjöðnunina má rekja til lækkandi verðs á bensín og smjöri, að því er kemur fram í frétt Bloomberg .

Um er að ræða fyrsta skipti í fimm mánuði sem verðbólgan hjaðnar í Danmörku. Verðbólgan hafði hækkað úr 0,6% í 3,4% frá janúar til nóvember 2021.

Hjöðnun verðbólgunnar kom hagfræðingum Danske Bank á óvart, ekki síst í ljósi þess að fyrirtæki hafa lýst yfir áhyggjum af skorti á vinnuafli.

Sjá einnig: Mestu inngrip danska seðlabankans í sjö ár

Rafmagnsverð mun ráða örlögum um þróun verðbólgunnar á næstu mánuðum, að sögn aðalhagfræðings Danske Bank. Rafmagnsverð í Danmörku hækkaði alls um 32,1% á síðasta ári.