Árshækkun vísitölu neysluverðs í Tyrklandi nam 36% í desember en greiningaraðilar höfðu spáð tæplega 30% hækkun. Verðbólgan hækkaði úr 21,3% í 36,1% á milli mánaða og hefur nú ekki verið meiri í nítján ár. Hagfræðingur sem Reuters ræddi við spáir því að verðbólgan geti náð 50% ef seðlabanki Tyrklands herðir ekki peningastefnu sína.

Verðbólguþrýstingurinn skýrist að stærstum hluta af falli lírunnar, gjaldmiðils Tyrklands. Undir lok síðasta árs hafði gjaldmiðillinn fallið um meira en 60% gagnvart dollaranum eftir miklar stýrivaxtalækkanir en Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur verið andvígur háum vöxtum. Gengi lírunnar styrktist þó verulega þegar Erdogan kynnti nýtt sparnaðarkerfi sem greinendur lýstu sem ígildi kraftmikillar vaxtahækkunar.

Sjá einnig: Líran tekur við sér

Gengi gjaldmiðilsins er enn óstöðugt og féll um 4% gagnvart dollaranum við verðbólgufréttirnar í morgun.