Verðbólga í Tyrklandi mældist 61,1% á ársgrunni í síðasta mánuði og jókst um 6,7 prósentustig frá fyrri mánuði. Verðbólgan hefur ekki verið meiri þar í landi í tvo áratugi.

Árshækkun vísitölu framleiðsluverðs mældist yfir 100% þriðja mánuðinn í röð og kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 48%.

Sjá einnig: Rak hagstofustjórann eftir met verðbólgu

Þrátt fyrir vaxandi verðbólgu ákvað Seðlabanki Tyrklands að lækka stýrivexti úr 18% í 14% síðasta haust eftir þrýsting frá forsetanum Recep Tayyip Erdoğan. Í umfjöllun Bloomberg segir að sé leiðrétt fyrir verðlagi, þá eru stýrivextir í Tyrklandi nú þeir lægstu í heiminum. Raunvextir í Tyrklandi eru nú neikvæðir um 47%.

Hin mikla verðbólga setur nú þrýsting á líruna, gjaldmiðil Tyrklands, sem veiktist mest gagnvart Bandaríkjadollaranum af gjaldmiðlum nýmarkaðsríkja, að rúblunni undanskilinni. Líran hefur veikst um 9,5% í ár.