Þorsteinn segir að reynslan ætti að hafa kennt Íslendingum að óhóflegar launahækkanir séu alltaf skammgóður vermir sem hafi kunnuglegar afleiðingar. „Verðbólgan kemur á endanum. Hún kemur með skelli í lokin, þegar gengið hrynur,“ segir hann.

„Þá fá fyrirtækin það í andlitið að þurfa í sömu andrá að glíma við mjög miklar kostnaðarhækkanir og mjög mikinn eftirspurnarsamdrátt í hagkerfinu. Það fórum við eftirminnilega í gegnum árin 2008 og 2009,“ segir Þorsteinn.

„Ástandið núna er tekið að minna mjög á það sem gerðist í aðdraganda þjóðarsáttar á árunum 1986 til 1989 þegar raungengi fór í hæstu hæðir og eftirspurnarþrýstingur í hagkerfinu varð gríðarlegur. Fjöldi 1987 árgerðar af bílum var met sem var ekki slegið fyrr en 2007 að ég held. Þetta endurspeglar þessar öfgakenndu sveiflur sem við höfum búið til.“

Þorsteinn segir að fyrir sitt leyti sé núverandi fyrirkomulag í andarslitrunum. „Þetta er einfaldlega ekki valkostur lengur. Það verður að fara í umbætur á vinnumarkaði. Að öðrum kosti gætum við verið að kalla yfir okkur enn eina holskefluna og það er ótrúlegt ef við ætlum að fara þá leiðina verandi nýstigin út úr kreppu og rétt farin að sjá fyrir endann á helstu vandamálunum og viðfangsefnunum í kjölfar hennar,“ segir Þorsteinn Víglundsson að lokum.