*

laugardagur, 29. janúar 2022
Erlent 13. júlí 2021 14:29

Verðbólgan komin í 5,4% vestanhafs

Verðbólgan í Bandaríkjunum mældist 5,4% í júní en hún hefur ekki verið meiri síðan í ágúst 2008.

Ritstjórn
Verðvísitala notaðra bíla hækkaði um 10,5% á milli maí og júní.
epa

Árshækkun vísitöluneysluverðs í Bandaríkjunum nam 5,4% í júní. Verðbólgan hefur ekki mælst hærri í Bandaríkjunum síðan í ágúst 2008. Verðvísitala notaðra bíla hækkaði um 10,5% milli maí og júní, en þessi liður vegur um þriðjung af hækkun heildarvísitölunnar.

Svokölluð kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 4,5% í júní og hækkaði um 0,7 prósentustig frá maímánuði. Kjarnaverðbólgan hefur ekki mælsti meiri frá árinu 1991.

Ýmsar ástæður liggja að baki verðbólgunni, þar á meðal bati bandaríska hagkerfisins. Helsta ástæðan fyrir hækkun verðlags er sú að fyrirtæki ná ekki að sinna mikilli eftirspurn, að því er hagfræðingurinn Richard F. Moody, segir við WSJ. Einnig séu fyrirtæki í ferðaþjónustunni farin að hækka verð sín aftur.

Árstíðaleiðrétt verg landsframleiðsla Bandaríkjanna jókst um 6,4% á fyrsta ársfjórðungi. Hagfræðingar sem WSJ leitaði til telja að bandaríska hagkerfið hafi vaxið um 9,1% á öðrum ársfjórðungi á ársgrunni, sem yrði mesti vöxtur VLF í Bandaríkjunum frá upphafi níunda áratugarins.