*

fimmtudagur, 1. október 2020
Innlent 19. desember 2019 10:01

Verðbólgan komin niður í 2%

Hækkun vísitölu neysluverðs í desember nam 0,11%, en verðbólgan lækkaði úr 2,7% frá því í nóvember.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,11% í desember frá fyrri mánuði, en ef horft er á hækkunina án húsnæðis er hún 0,27%. Vísitalan fyrir síðustu tólf mánuði, það er verðbólgan, hefur hækkað um 2,0%, en án húsnæðis er hækkunin 1,7%.

Lækkar verðbólgan töluvert frá fyrra mánuði, eða úr 2,7%, því úr þessu 12 mánaða hlaupandi meðaltali er nú að detta verðbólguskotsmánuðir síðasta hausts, en fyrir ári síðan nam verðbólgan 3,7%. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Meðalvísitala neysluverðs fyrir árið sem er að líða er 3,0%, en árið 2018 var samsvarandi tala 2,7% og svo 1,8% árið 2017.

Meðalvísitalan án húsnæðis var 2,6% árið 2019, 0,9% árið 2018 og neikvæð um 2,2% árið 2017, enda þá mikil hækkun á húsnæðisverði.

Í tölunum fyrir desember nú kemur 9,6% hækkun á flugfargjöldum til útlanda, meðan kostnaður við búsetu í eigin húsnæði lækkar um 0,5%.