Tólf mánaða hækkun vísitölu neysluverðs hækkaði um 0,6 prósentustig og mældist 5,7% í janúar, samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar . Verðbólgan hefur ekki mælst meiri síðan í apríl 2012.

Vísitalan hækkaði um 0,50% frá fyrri mánuði. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 1,5% á milli mánaða, verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 1,3%, rafmagn og hiti hækkaði um 3,7% og verð á nýjum bílum hækkaði um 2,2%.

Aftur á móti eru vetrarútsölur víða í gangi og verð á fötum og skóm lækkaði um 8,0% og verð á húsgögnum, heimilisbúnaði og öðru tengdu lækkaði um 2,7%.

Verðbólgan mældist vel yfir spám greiningaraðila sem gerðu ráð fyrir hjöðnun. Greining Íslandsbanka og hagfræðideild Landsbankans spáðu því að verðbólgan myndi mælast 5,0% í janúar. IFS spáði einnig 0,15% lækkun vísitölunnar á milli mánaða.