Verðbólga á evrusvæðinu mældist 0,8% í desember. Þetta eru mikil vonbrigði fyrir Seðlabanka Evrópu, en hann hefur aukið verulega við peningaprentun og aðrar magnbundnar íhlutanir á síðustu mánuðum til að auka við verðbólgu.

Þrátt fyrir aðgerðir hans þá hefur verðbólgan lækkað á síðustu mánuðum Verðbólgan var 1% í október og 0,9% í nóvember. Verðbólga evrusvæðisins hefur nú verið undir markmiðum bankans í þrjú ár.

Hefur þetta aukið líkur á því að bankinn muni auka við aðgerðir sínar, s.s. með að auka við skuldabréfakaup og/eða lækka vexti frekar. Ákvörðun um slíkt gæti verið tekin á fundi bankans í mars nk. Bankinn lækkaði stýrivexti í desember sl. og framlengdi skuldabréfakaup bankans.