Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,04% milli mánaða í nóvember, sem þýðir að 12 mánaða hækkun hennar, verðbólgan, lækkaði úr 3,6% í 3,5%.

Viðskiptablaðið sagði frá því í fyrri hluta mánaðarins að Landsbankinn, sem og markaðsaðilar í könnun Seðlabankans, spáðu því að verðbólgan myndi halda áfram að hækka, og spáði bankinn því að hún færi nú í 3,8%, en markaðsaðilarnir spáðu því að meðaltal hennar á ársfjórðungnum yrði 3,7%.

Eins og Viðskiptablaðið greindi hins vegar frá fyrir mánuði síðan þá hækkaði verðbólgan úr 3,5% í 3,6%, eftir 0,43% hækkun vísitölunnar, þvert á spár greiningardeilda ríkisbankanna fyrr í mánuðinum um að verðbólgan stæði í stað eða myndi lækka.

Húsgögn, heimilisbúnaður og fleira hækkaði nokkuð nú eða um 1,1%, sem hafði 0,06% áhrif á vísitöluna til hækkunar. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,1% frá því í október, svo 12 mánaða hlaupandi hækkun hennar, verðbólga án húsnæðisliðar, hefur hækkað um 4,2%.