Tólf mánaða verðbólga mælist 2,8% í apríl. Í mars var verðbólgan 2,3%. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs í dag, sem hækkaði um 0,78% frá fyrri mánuði. Án húsnæðis mælist verðbólgan 2,7% á ársgrundvelli.

Frétt Hagstofunnar:

Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í apríl er 374,1 stig (maí 1988=100) og hækkaði um 0,78% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 356,2 stig og hækkaði um 0,65% frá mars.

Verð á bensíni og olíum hækkaði um 3,2% (vísitöluáhrif 0,19%) og flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 16% (0,16%). Kostnaður vegna eigin húsnæðis jókst um 1,4% (0,17%), aðallega vegna hærra markaðsverðs.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,8% og vísitalan án húsnæðis um 2,7%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,9% sem jafngildir 12,3% verðbólgu á ári (12,2% verðbólgu fyrir vísitöluna án húsnæðis).

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í apríl 2011, sem er 374,1 stig, gildir til verðtryggingar í júní 2011. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 7.387 stig fyrir júní 2011.

Nýr grunnur

Vísitalan er nú birt á nýjum grunni, mars 2011 og byggist hann á niðurstöðum úr útgjaldarannsókn Hagstofunnar árin 2007-2009. Auk hennar hefur Hagstofan notað ýmsar nýrri heimildir við vinnslu grunnsins. Má þar nefna tölur um nýskráningar bifreiða og gögn um veltu á smásölumarkaði. Innbyrðis vægi dagvöruverslana hefur verið endurskoðað. Þá hefur tillit verið tekið til breytts innkaupamynsturs árið 2010 og eru áhrif þeirrar breytingar 0,04% til lækkunar á vísitölunni. Að öðru leyti veldur endurnýjun grunnsins sem slík ekki breytingum á vísitölunni milli mars og apríl. Hlutfallslega skiptingu vísitölunnar á gömlum og nýjum grunni í mars 2011 er að finna hér .