Samræmd vísitala neysluverðs hækkaði um 0,2% á milli júlí og ágúst síðastliðinn á evrusvæðinu og um hið sama sé tekið mið af öllum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Er tólf mánaða taktur vísitölunnar 2,5% á evrusvæðinu og 2,9% í ríkjum EES sem er hvort tveggja óbreytt frá fyrri mánuði. Þetta kemur fram í samantekt greiningar Íslandsbanka.

Í fréttabréfi Greiningar segir að af löndum EES var verðbólgan mest í ágúst í Eistlandi (5,6%) og næstmest á Íslandi (5,0%). Þó hjaðnar árstaktur verðbólgunnar hér á landi frá því í júlí þegar hún mældist 5,2% en á sama tímabili eykst hún á Eistlandi en hún var 5,3% í júlí.

„Þó má segja að í heildina litið sé verðbólgan að hjaðna í fleiri löndum en hún er að aukast. Aðeins eitt land í Evrópu er að upplifa ástand verðhjöðnunar í ágúst, og er það Sviss. Tólf mánaða taktur verðbólgunnar mælist þar með neikvæðum formerkjum (-0,3%) en í júlí var árstaktur verðbólgunnar 0,3%," segir í Morgunkorni.