*

sunnudagur, 18. apríl 2021
Innlent 31. janúar 2021 11:48

Verðbólgan muni hjaðna

Aðalhagfræðingur Arion banka reiknar með að verðbólga, sem nýlega náði sjö ára hámarki, muni hjaðna eftir því sem líður á árið.

Ritstjórn
Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka.
Eyþór Árnason

Verðbólga mældist 4,3% í janúar og hefur hún ekki mælst hærri í rúmlega sjö ár. Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, segir að þessar tölur hafi að einhverju leyti verið viðbúnar þar sem reiknað hafði verið með að verðbólgan myndi ná ákveðnu hámarki í janúar.

„Mælingin fyrir ári síðan var dálítið sérstök og skekkir því samanburðinn milli ára. Þetta er þó örlítið meiri verðbólga en reiknað hafði verið með, sem má fyrst og fremst rekja til lítilla útsöluáhrifa. Yfirleitt vega útsöluáhrifin þungt í janúar á móti gjaldskrárhækkunum og öðru tilfallandi en Covid hefur breytt neysluhegðun landsmanna. Fólk er lítið að ferðast til útlanda og því er eftirspurnin í auknum mæli að beinast til innlendrar verslunar." 

Hún reiknar með að verðbólgan muni hjaðna eftir því sem líður á árið. Óvissuþættir, líkt og gengi krónunnar og húsnæðismarkaðurinn, geti þó breytt horfum á svipstundu.