Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,09% á milli ágúst og september og hefur nú hækkað um 9,3% á ársgrundvelli. Verðbólgan hjaðnaði því um 0,4 prósentustig frá síðasta mánuði þegar hún mældist 9,7%.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkar um 0,09% á milli mánaða og hefur nú hækkað um 7,0% á síðastliðnum tólf mánuðum.

Í tilkynningu Hagstofunnar er tekið fram að verð á fötum og skóm hækkaði um 4,6% á milli mánaða og verð á raftækjum til heimilsnota hækkaði um 5,4%. Hins vegar lækkaði verð á flugfargjöldum til útlanda lækkaði um 17,9% frá fyrri mánuði.

Sjá einnig: Íbúðaverð lækkaði í ágúst

Greining Íslandsbanka og hagfræðideild Landsbankans spáðu því að verðbólgan yrði 9,6% í september en eftir að í ljós kom að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði í ágúst var verðbólguspá bankanna tveggja færð niður í 9,4%.

Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði stýrivexti um 0,75 prósentur fyrir rúmum mánuði síðan. Nefndin hefur hækkað stýrivexti samtals um 3,5 prósentur í ár úr 2,0% í 5,5%. Næsta boðaða vaxtaákvörðun er þann 5. október næstkomandi.