Árshækkun vísitölu neysluverðs nam 4,3% í ágúst, samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar .  Vísitalan hækkaði um 0,46% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,40% á milli mánaða.

Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, þ.e. reiknuð húsaleiga, hækkaði um 1,0% milli mánaða og vó 0,16% af árshækkun vísitölu neysluverðs.

Verðbólgan hefur nú mælst yfir 4%, og þar með yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands, frá því í janúar síðastliðnum. Peningastefnunefnd Seðlabankans sagði í yfirlýsingu samhliða stýrivaxtahækkuninni í síðustu viki að verðbólgan yrði að líkindum yfir 4% út árið „en verði komin í markmið á seinni hluta næsta árs“.

Hækkun vísitölunnar var yfir væntingum greiningardeilda Landsbankans og Íslandsbanka sem höfðu báðar spáð því að verðbólgan myndi lækka í 4,2% í ágúst. Hagfræðideild Landsbankans spáði því að vísitalan myndi hækka um 0,36% frá fyrri mánuði og Greining Íslandsbanka gerði ráð fyrir 0,4% hækkun milli mánaða.