Vísitala neysluverðs er óbreytt milli mánaða og var hún 443,0 stig í júnímánuði, líkt og í maí. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 386,0 sem er lækkun um 0,41% frá maí 2017.

Ef horft er til síðustu tólf mánaða hefur vísitala neysluverðs hins vegar hækkað um 1,5%, en vísitalan án húsnæðis lækkað um 3,1% að því er Hagstofan greinir frá. Verðbólgan nemur því um 1,5% með húsnæði, en án húsnæðis má merkja verðhjöðnun.

Þegar breytingin milli mánaða er skoðuð sést að kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hækkaði um 1,2%, meðan verð á mat og drykkjarvörum lækkaði um 1,2%.

Flugfargjöld til útlanda hafa hins vegar hækkað um 11,6%, og verð á fötum um 3,5%, meðan vörur og þjónusta tengd tómstundum og menningu hefur lækkað um 1,2%.