Jay Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, segir hina ört vaxandi verðbólgu vestanhafs ógna vinnumarkaði en Powell bar vitni fyrir bankamálanefnd Öldungadeildar Bandaríkjaþings í gær. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times .

Powell staðfesti á fundinum í gær að peningastefnunefnd bankans muni beita þeim tækjum sem nefndin hefur yfir að ráða til að koma í veg fyrir að verðbólgan verði enn meiri og þrálátari. Hann sagði að bankinn ætli að koma á jafnvægi í peningastefnunni með því að ljúka skuldabréfakaupum í mars og hefja vaxtahækkunarferli. Hann bætti við að bankinn myndi ekki hika við að hækka vexti til að stemma stigu við verðbólgunni.

Spá 7% verðbólgu í desember

Sérfræðingar gera ráð fyrir því að bankinn muni hefja vaxtahækkunarferli í mars á þessu ári, en á þeim tímapunkti á skuldabréfakaupum bankans að ljúka. Goldman Sachs spáir fjórum vaxtahækkunum á árinu, í mars, júní, september og desember.

Verðbólgutölur fyrir desembermánuð verða birtar síðar í dag, en spár gera ráð fyrir því að verðbólgan brjóti 7% múrinn, sem yrði mesta ársverðbólga í 40 ár. Þess má geta að verðbólga í Bandaríkjunum mældist 1,4% í desember árið 2020. Á tímabili hafði Powell haldið því fram að ört vaxandi verðbólga væri tímabundin (e. transitory) en hann sagði við þingið í lok nóvember að kominn væri tími til að hætta að nota slíkt orðalag.

Sjá einnig: Stefnir í aukið aðhald peningamála

Í fundargerð, frá fundi peningastefnunefndar Seðlabanka Bandaríkjanna í síðustu viku, sagðist bankinn íhuga að hækka stýrivexti fyrr og hraðar en áður hafði verið áformað. Einnig var nefndin sögð vera hlynnt áformum um að draga hraðar úr skuldabréfakaupum sínum. Afstaða nefndarinnar á fundinum er sögð til marks um aukna aðhaldssemi í stjórn peningamála.