Árshækkun vísitölu neysluverðs mældist 7,6% í maí sem er um 0,4 prósentustiga hækkun frá því í apríl þegar verðbólgan mældist 7,2%. Vísitalan hækkaði um 0,77% á milli mánaða.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkar um 0,42% frá síðasta mánuði og hefur nú hækkað um 5,5% á ársgrunni.

Í tilkynningu Hagstofunnar segir að verð á mat og drykkjarvörum hafi hækkað um 0,9% frá fyrri mánuði. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, eða reiknuð húsaleiga, hækkaði um 2,3%. Verð á nýjum bílum hækkaði um 2,1%, verð á bensíni og olíum hækkaði um 0,9% og verð á flugfargjöldum til útlanda hækkaði um 6,9% á milli mánaða.