Verðbólga mældist 4,3% í júlí og stendur í stað frá síðasta mánuði. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar .

Vísitala neysluverðs hækkar um 0,16% frá því í júní, úr 502,7 stigum í 503,5 stig. Hækkanir á flugfargjöldum, húsaleigu og bensín- og olíuverði vógu þyngst til hækkana á vísitölunni en sumarútsölur vega hins vegar á móti hækkunum.

Án húsnæðis hækkar vísitalan um 3,4% á ársgrundvelli. Í júlí á síðasta ári var 3% verðbólga en í janúar var verðbólgan aftur komin yfir fjögur prósentustig, í 4,3%, í kjölfar vaxandi spennu á húsnæðismarkaði.

Í byrjun mánaðar spáði Landsbankinn að verðbólga yrði 4,4% í mánuðinum og Íslandsbanki spáði 4,2% verðbólgu. Gert er ráð fyrir að verðbólga nái 2,5% markmiðum Seðlabanka Íslands á seinni hluta næsta árs.