Í apríl hækkaði vísitala neysluverðs um 0,48% frá fyrri mánuði, sem þýðir að 12 mánaða hlaupandi hækkun vísitölunnar, það er verðbólgan, er 2,2%, en hún var 2,1% í mars, 2,4% í febrúar en 1,7% í janúar, að því er Hagstofa Íslands greinir frá.

Landsbankinn hafði spáð eilítið minni verðbólgu , eða 2,1% fyrir aprílmánuð í bráðabirgðaspá sem gerð var í mars, en greiningardeild bankans hafði spáð 2,2% verðbólgu í mars.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um gaf Seðlabankinn út í lok mars að hann hyggðist tryggja að verðbólga færi ekki úr böndunum þó gengi krónunnar hafi gefið eftir, en síðan þá hefur hún veikst um nærri fimmtung frá evru. Þá hafði verðbólgan hækkað töluvert yfir væntingum milli janúar og febrúar.

Íslandsbanki spáði einnig minni verðbólgu, eða 2,0 fyrir apríl í upphafi mánaðarins, svo hún er að aukast þvert á væntingar bankans. Bankinn hafði spáð lægstu verðbólgu í yfir tvö ár í janúar , eða 1,9%, en hún varð jafnvel lægri.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,57% frá mars 2020 til apríl 2020, og verðbólgan án húsnæðis var því 1,9%. Matur hækkaði um 1,5%, verð á bensíni og olíum hækkaði um 4,6% og verð á nýjum bílum hækkaði um 2,3% milli mánaða.