Verðbólguálag til lengri tíma á skuldabréfamarkaði er nú hærra en það hefur verið frá ársbyrjun 2009, og hefur álagið tvöfaldast frá upphafi árs. Þetta kemur fram í Morgunkornum Íslandsbanka. Verðbólguálag til 7 ára er nú 5,2%, en í janúarbyrjun var 7 ára álagið jafnt verðbólgumarkmiði Seðlabankans, eða 2,5%. Svipaða sögu má segja af 5 ára álaginu, sem hefur hækkað úr 2,1% í 4,7% á sama tímabili. Hækkun álagsins hefur fyrst og fremst orðið fyrir tilstilli hækkunar á kröfu lengri óverðtryggðra ríkisbréfa. Þannig hefur til að mynda krafa ríkisbréfaflokksins RIKB25 hækkað úr 6,03% í 8,18% það sem af er ári. Krafa lengri flokka íbúðabréfa, sem myndar verðtryggða markflokkaferilinn á íslenska skuldabréfamarkaðinum, hefur hins vegar lítið breyst á sama tíma. Má þar nefna að raunkrafa HFF34-bréfa er nú 3,15% en var 3,27% í upphafi árs.