Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði, sem er reiknað út frá vaxtamuni óverðtryggðra og verðtryggðra skuldabréfa, hefur undanfarin misseri ekki endurspeglað væntingar markaðarins um verðbólgu. Skortur á verðtryggðum skuldabréfum á markaðnum hefur ýtt undir verð þeirra og ýkt verðbólguálagið.

Verðbólguálag er oft notað sem mælikvarði á þá verðbólgu sem markaðurinn væntir á næstu árum. Þær upplýsingar eru mjög gagnlegar. Væntingar samfélagsins um verðbólgu eru meðal annars mikilvægt innlegg í ákvarðanatöku Seðlabankans. Mat Seðlabankans á verðbólguvæntingum er annars vegar byggt á spurningakönnunum meðal heimila, fyrirtækja og markaðsaðila, og hins vegar á verðbólguálagi skuldabréfamarkaðarins.

Ofangreindir tveir mælikvarðar á verðbólguvæntingar eru bornir saman í Peningamálum Seðlabankans. Í maí 2014 var fimm ára verðbólguálag á skuldabréfamarkaði 4%, en samkvæmt könnun meðal markaðsaðila voru væntingar um 3,6% verðbólgu á næstu fimm árum. Ári síðar var verðbólguálagið orðið 5%, en könnun markaðsaðila leiddi í ljós væntingar um 3,2% verðbólgu að meðaltali næstu fimm árin. Munurinn á þessum tveimur mælikvörðum jóx því mikið á milli ára.

Verðmyndunin óskilvirk

Greining Íslandsbanka vakti athygli á bjögun verðbólguálagsins í Morgunkorni sínu á dögunum. Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir í samtali við Viðskiptablaðið að staðan sem um ræðir á skuldabréfamarkaði geri það erfitt að komast að raunverulegum verðbólguvæntingum markaðarins. Lítið sé verið að gefa út af verðtryggðum bréfum og verðmyndunin á þeim sé óskilvirk.

„Það væri betra ef markaðurinn væri virkari og dýpri að þessu leyti og skoðanaskiptin væru frekar þá að endurspegla væntingar, frekar en einhverja [aðra] þætti. Það væri til bóta ef það væri til að mynda gefið út eitthvað af ríkistryggðum, verðtryggðum bréfum til þess að gera verðmyndun á þessum hluta markaðarins skilvirkari,“ segir Jón Bjarki.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .