Mörgum landsmönnum er enn í fersku minni að í fjármálahruninu 2008 fór verðbólgan á flug og mældist hæst um 18%. Í kynningu Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, á þjóðhagsspánni kom fram að bankinn ætti von á hóflegri verðbólgu á næstunni og ekki sé reiknað með að bankinn þurfi að glíma við mikla verðbólgu.

Í spánni segir að nýleg lækkun á gengi krónunnar valdi því að verðbólga verður meiri á næstu mánuðum en spáð var í febrúar, þótt áfram sé talið að hún verði við eða undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Á móti áhrifum lægra gengis vegi mikil lækkun alþjóðlegs olíuverðs og þá hafi alþjóðlegt matvæla- og hrávöruverð almennt lækkað þótt verð sumra vara hafi hækkað. Þegar líði á þetta ár fara hins vegar áhrif mikils slaka sem myndast hafi í þjóðarbúskapnum að vega þyngra og því sé spáð að verðbólga verði undir 2% á seinni hluta spátímans.