Seðlabankinn hefur frá upptöku verðbólgumarkmiða árið 2001 spáð því að verðbólga verði minni en raunin varð. Bankinn segir skýringuna liggja að miklu leyti í gengissveiflum krónunnar. Fram kemur í Peningamálum Seðlabankans sem kom út samhliða vaxtaákvörðun að gert sé ráð fyrir því að verðbólga verði að meðaltali 3,6% á næsta ári og 2,7% að jafnaði árið 2014.

Greining Íslandsbanka bendir á það í Morgunkorni sínu í dag að Seðlabankinn hafi í gegnum tíðina verið of bjartsýnn og dregur í efa að verðbólgan muni minnka með þeim hætti sem fram kemur í Peningamálum þegar fram í sæki. Af þeim sökum muni bankinn finna sig knúinn til að hækka nafnstýrivexti sína nokkru meira bæði á næsta og þarnæsta ári.

Í Morgunkorninu segir:

„Í því ljósi er raunar athyglisvert að rýna í greiningu Seðlabankans sjálfs á verðbólguspám sínum undanfarin ár, sem birt var í Peningamálum í dag. Niðurstöður þeirrar greiningar eru meðal annars að frá árinu 2001, þ.e. frá upptöku verðbólgumarkmiðsins, hafi verðbólgu eftir fjóra ársfjórðunga að meðaltali verið vanspáð um 1,7% og verðbólgu eftir átta ársfjórðunga verið vanspáð um 2,9%. Einnig kemur þar fram að bæði spáskekkja og staðafrávik spár fjóra ársfjórðunga fram í tímann hefur aukist eftir upptöku verðbólgumarkmiðs. Skýringuna segir bankinn liggja að miklu leyti í gengissveiflum krónu. Við höfum áður bent á að sú forsenda í spágerð bankans að festa gengi krónu nálægt stundargengi á spádegi sé ekki til þess fallin að auka trúverðugleika verðbólguspáa hans, og styrkja þessar niðurstöður þá skoðun okkar.“