„Mönnum hefur ekki tekist neitt sérstaklega vel að spá fyrir um verðbólguna síðustu misserin. Hún var töluvert hærri síðast en menn bjuggust við og lægri nú,“ segir Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri GAM Management (GAMMA).

Spár greiningardeilda gerðu ráð fyrir að vísitala neysluverðs myndi hækka um allt frá 0,2% til 0,5% og að verðbólga færi úr 6,4% í á bilinu 5,7% til 6,0%. Raunin varð hins vegar sú að vísitalan lækkaði um 0,03% á milli mánaða og lækkaði verðbólgan niður í 5,4%.

Gísli segir frávikið frá spánum líklega skýrast af því að flestar greiningardeildir hafi gert ráð fyrir sterkari áhrifum af fasteignaliðnum en áður. Þetta er jafnframt stærsti liðurinn sem áhrif hefur áhrif á vísitölu neysluverðs.

„En nú hefur hækkun á fasteignamarkaði verið frekar lítil á árinu og því skilað litlum hækkunum á vísitölunni,“ segir hann.

Seðlabankinn gæti komið á óvart

Vaxtaákvörðunardagur er hjá Seðlabankanum í næsta mánuði. Peningastefnunefnd bankans ákvað á fundi sínum í síðustu viku að hækka stýrivexti um 0,5% og fóru stýrivextir við það í 5,5%.

„Nú er spurning hvort verðbólgutölurnar nú hafi áhrif á næstu vaxtaákvörðun. Markaðurinn er búinn að bóka nær örugga vaxtahækkun og Seðlabankastjóri tjáði sig í viðtali eftir fundinn um að einhverjar vaxtahækkanir væru bundnar inn í spánna sem kom fram í Peningamálum. Seðlabankinn hefur reyndar sjálfur sagt að hann horfi ekki á stakar verðbólgumælingar en á móti má horfa til að Seðlabankinn lýsti yfir miklum áhyggjum af aðhaldi í ríkisfjármálum í peningamálum og má búast við að nýkynnt fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar fari ekki vel í bankann,“ segir Gísli.

Hann heldur áfram:

„En svo er aldrei að vita, hann gæti haldið stýrivöxtum óbreyttum þótt það komi á óvart þar sem tólf mánaða verðbólga er enn há og spár bæði Seðlabankans og greiningardeilda geri ráð fyrir hárri verðbólgu næstu mánuði.“