Langtímaverðbólguvæntingar bandarískra fjárfesta hafa ekki verið lægri í eitt ár samkvæmt frétt Financial Times en munurinn á ávöxtunarkröfu verðtryggðra bandarískra ríkisskuldabréfa, TIPS, og óverðtryggðra skuldabréfa ríkissjóðs er nú 1,85% og var 2,73% fyrir mánuði síðan.

Að sögn FT er þó enn nokkuð í að verðbólguvæntingar verði jafn lágar og í fyrrasumar þegar markaðuinn óttaðist verðhjöðnun í hagkerfinu. Lækkun verðbólguvæntinga átti sér stað nánast um leið og seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti Twist-áætlun sína, nýjasta útspil sitt til þess að örva hagkerfið og má segja að viðbrögðin endurspegli vantrú markaðarins á að aðgerðin muni heppnast.