Verðbólguvæntingar markaðsaðila til skemmri og lengri tíma hafi lækkað lítillega, samkvæmt niðurstöðum könnunar Seðlabankans, sem framkvæmd var dagana 2. til 4. maí. Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar um 1,9-2,0% verðbólgu á þessu ári en að hún muni aukast á fyrri helmingi næsta árs og verði 2,2-2,4%.

Þá vænta markaðsaðilar þess að verðbólga verði 2,6% eftir tvö ár og einnig að meðaltali næstu fimm og tíu ár. Á heildina litið lækka verðbólguvæntingar um 0,1-0,3 prósentur milli kannana. Þá gefur könnunin til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi evru gagnvart krónu verði 111 kr. eftir eitt ár, þ.e. að gengi krónu verði rúmlega 5% hærra en það var við framkvæmd könnunarinnar nú í maí. Er það meiri hækkun en þeir gerðu ráð fyrir í febrúar.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að vextir bankans verði lækkaðir um 0,25 prósentur á öðrum fjórðungi þessa árs. Það samsvarar því að meginvextir bankans lækki úr 5% í 4,75%. Þeir vænta enn frekari lækkunar á fjórða ársfjórðungi en gera hins vegar ráð fyrir því að meginvextirnir verði hækkaðir á ný í 4,75% á öðrum fjórðungi 2018. Þetta eru lægri vextir en þeir væntu í febrúarkönnuninni.

Leitað var til 30 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 22 aðilum og var svarhlutfallið því 73%.