Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna rannsakar um þessar mundir atvik sem snerist um Eastman Kodak Co. sem tilkynnti 765 milljóna dollara lán frá ríkinu til að framleiða lyf í verksmiðjum sínum í Bandaríkjunum. Frá þessu er greint á vef Wall Street Journal .

Þessi tilkynning varð til þess að hlutabréfaverð í Kodak hækkaði allsvakalega á afar skömmum tíma. Rannsókn verðbréfaeftirlitsins er á frumstigi og það kann að vera að rannsóknin leiði í ljós að ekkert saknæmt hafi átt sér stað.

Í síðustu viku kom í ljós að upplýsingarnar um samninginn láku áður en hann var gerður opinber. Nokkrir fjölmiðlar höfðu gert grein fyrir honum áður en þeir fengu fyrirmæli um að eyða umfjölluninni.