Erlend verðbréfaeign Íslendinga nam 914,8 milljörðum króna í árslok 2009 og lækkaði um 127,3 milljarða frá fyrra ári. Þegar innlendir aðilar áttu sem mest erlendis nam upphæðin 1.930,3 milljörðum króna. Það var í árslok 2007.

Seðlabankinn birtir í dag gögn um erlenda verðbréfaeign innlendra aðila skipt eftir tegund og löndum.  Grein Seðlabankans er byggð á alþjóðlegri könnun sem var framkvæmd að frumkvæði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fyrir árið 2009 skiluðu 75 lönd gögnum í þessa könnun.

Af 914,8 milljarða króna eign innlendra aðila erlendis var 87% í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum. Um 75% var í Bandaríkjunum, Bretlandi, Írlandi, Lúxemborg og Noregi.


Landaskipting verðbréfa árið 2009
Landaskipting verðbréfa árið 2009
© None (None)

Landaskipting verðbréfa árið 2009. Tafla úr skýrslu Seðlabankans. Stækka má myndina með því að smella á hana.

Alls héldu lífeyrissjóðirnir um 57% af allri erlendri verðbréfaeign innlendra aðila í árslok 2009.

Hækkanir erlendis skiluðu sér til Íslands

Seðlabanki Íslands tekur fram í grein sinni að þegar tölur áranna 2008 og 2009 eru skoðaðar er mikilvægt að hafa í huga að aðstæður í íslensku hagkerfi voru um margt óvenjulegur. „Þannig hækkaði gengi erlendra gjaldmiðla t.d. um 80% árið 2008 og 7,6% árið 2009 gagnvart íslensku krónunni ásamt því aðgripið var til gjaldeyrishafta seint á árinu 2008.“

Á árinu 2009 varð töluverð hækkun á erlendum mörkuðum og skilaði sér til margra íslenskra fjárfesta ásamt því sem hækkun gengis erlendra gjaldmiðla um 7,6% gagnvart íslensku krónunni jók verðmæti erlendrar verðbréfaeignar í krónum talið.

„Evra og Bandaríkjadalur styrktust um u.þ.b. 5% á árinu gagnvart krónu en Sterlingspund um 15%. Heimsvísitala hlutabréfa (MSCI) hækkaði um 25,9% árið 2009. Hlutabréfavísitölur í Bretlandi og Bandaríkjunum hækkuðu um rúmlega 20% og í Noregi um 57%. Um 58% af hlutabréfaeign innlendra aðila var í þessum þremur löndum í árslok 2009. Þetta á þó aðeins við um hlutabréf þar sem fjárfestir á innan við 10% af hlutafé fyrirtækis (svokallaða verðbréfafjárfestingu, sjá nánar aðferðafræðikafla í lok greinar). Heimsvísitala skuldabréfa (Salomon) hækkaði um 2,92% á árinu 2009 en sögulega séð er það óvenju lág ávöxtun.

Nettó viðskipti með verðbréf voru neikvæð árið 2009. Aðilar undanskildir gjaldeyrishöftum, s.s. skilanefndir bankanna, hafa ekki bætt við sig verðbréfum svo neinu nemi,“ segir í skýrslunni.

Langmest í Evrópu

Svæðaskipting verðbréfa 2009 eftir heimsálfum
Svæðaskipting verðbréfa 2009 eftir heimsálfum
© None (None)

Svæðisskipting verðbréfa árið 2009.
Tafla úr skýrslu Seðlabankans. Stækka má myndina með því að smella á hana.

Líkt og sjá má í töflunni hér að ofan er mest verðbréfaeign er staðsett í Evrópu og þar næst í Ameríku. Seðlabankinn segir að sé miðað við síðustu ár komi lítið á óvart. „Hlutfallslegt vægi milli verðbréfaeigna innlendra aðila í Evrópu á móti Ameríku var 2,8 á móti 1 og hefur ekki verið jafnlítið síðan í árslok 2004. Við upphaf könnunar, þ.e. árslok 2001, var vægið einungis 1,15 á móti 1.“

Grein Seðlabankans má finna hér .