Eignir verðbréfasjóða námu 263,9 milljörðum króna í lok febrúar sl. og hækkuðu um 4,8 milljarða á milli mánaða.

Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans.

Eignir fjárfestingarsjóða námu 54,6 milljörðum króna í lok febrúar og hækkuðu um 1,9 milljarða á milli mánaða. Eignir fagfjárfestasjóða námu 238,1 milljarði í lok febrúar og hækkuðu um 1,8 milljarða  í mánuðinum.

Þá kemur fram í hagtölum bankans að mest hækkun febrúarmánaðar hafi orðið í þeim sjóðum sem flokkast sem skuldabréfasjóðir eða 6,8 milljarðar króna og í hlutabréfasjóðum 1,4 milljarðar króna.

Í september síðastliðnum var byrjað að safna gögnum fyrir fagfjárfestasjóði og eru því samanlagðar heildareignir sjóðanna ekki sambærilegar fyrir og eftir þann tíma. Frá og með september var byrjað að birta gögn um gjalddagaskiptingu skuldabréfa, flokkun á eigendum hlutdeildarskírteina og flokkun á eignum sjóða eftir tegundum.