Verðbréfaskráning Íslands hf. tekur upp nafnið Nasdaq verðbréfamiðstöð hf. (á ensku Nasdaq CSD Iceland hf.), en þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Þar segir að nafnabreytingin sé liður í því að tengja fyrirtækið með sýnilegri hætti við bandaríska móðurfélagið Nasdaq og þannig endurspegla alþjóðlegar tengingar íslensku starfseminnar.

Nasdaq verðbréfamiðstöð var stofnuð árið 1997 þá sem Verðbréfaskráning Íslands. Frá árinu 2008 hefur fyrirtækið verið í eigu kauphallarsamstæðunnar Nasdaq, sem á og rekur kauphallir á 26 mörkuðum, 5 verðbréfaskráningar og 1 uppgjörshús.

Helsta hlutverk Nasdaq verðbréfamiðstöðvar er m.a. að sjá um miðlæga skráningu rafrænna verðbréfa fyrir útgefendur á íslenskum markaði og sjá um miðlæga vörslu og uppgjör rafrænna verðbréfa fyrir reikningsstofnanir. Framkvæmdastjóri Nasdaq verðbréfamiðstöðvar er Guðrún Ó. Blöndal.