Miðlaraskúrkurinn Jerome Kerviel hefur verið dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar og til endurgreiðslu á 4,9 milljörðum evra sem hann tapaði í stórtækum framvirkum viðskiptum á árunum 2007 og 2008 þegar hann starfaði hjá franska bankanum Société Générale. Hann hlaut tveggja ára skilorðsbundinn dóm til viðbótar. Þetta er eitt af umsvifamestu málum af þessu tagi og hefur gjarnan verið setet í samhengi við það þegar verðbréfaskúrkurinn Nick Leeson setti Barings-banka á hausinn með framvirkum gjaldmiðlaviðskiptum árið 1995.

Eins og áður segir voru viðskipti Kerviel mjög umfangsmikil en á tímabili var hann með 50 milljarða evra undir. Það jafngildir rúmum 8.000 milljörðum íslenskra króna og var hærri upphæð en sem nam markaðsverðmæti Société Générale.

Upp komst um málið fyrir tveimur árum og var hann ákærður í kjölfarið m.a. fyrir skjalafals.

Breska dagblaðið Guardian segir Kerviel hafa krafist sýknu á þeim forsendum að yfirmenn hans hafi vitað af viðskiptum hans en lokað augunum fyrir þeim á meðan þau voru ábatasöm fyrir bankann.